Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 566/2020 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 566/2020

Þriðjudaginn 16. febrúar 2021

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. nóvember 2020, kærðu B og C, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2020 um endurkröfu ofgreiddra bóta vegna október 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddan ellilífeyri á árinu 2020. Hann lést 25. september 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. október 2020, var kæranda tilkynnt um kröfu vegna ofgreiddra bóta að fjárhæð 143.958 kr. vegna október 2020 og innheimtu hennar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. desember 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Greint er frá því í kæru að umrædd endurgreiðsla hafi komið inn á reikning dánarbúsins um mánaðamótin september-október. Komið hafi fram í bréfi Tryggingastofnunar í október að þessi greiðsla hafi ekki átt að eiga sér stað. Samkvæmt símtali við stofnunina sé um fyrirframgreiðslu að ræða og að þessi greiðsla eigi að vera fyrir október.

Kærandi hafi ekki fundið neinar upplýsingar eða reglur sem segi að greiðslur sem þessi séu greiddar fyrir fram. Það myndi þýða að sá látni eða allir þeir sem þiggi þessar greiðslur eigi að fá fyrstu greiðsluna með síðustu launum sínum frá vinnuveitanda eftir vinnulok. Væri Tryggingastofnun að fara fram á að fá endurgreiðslu fyrir þá daga sem eftir hafi verið af septembermánuði eftir að A lést, væri þetta ekki vandamál.

Þessi ákvörðun sé kærð þar sem þetta geti ekki verið rétt. Áður en eitthvað verði greitt, sem gæti verið rangt, sé farið fram á að þetta verði skoðað og staðfest með tilvísun í þann greiðsluferil sem stuðst sé við hjá Tryggingastofnun ríkisins.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé stöðvun og endurkrafa ellilífeyrisgreiðslna. Kæran sé vegna dánarbús A.

Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. 15. október 2020, tilkynnt að myndast hafi krafa á hendur kæranda vegna ofgreidds lífeyris fyrir októbermánuð 2020.

Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki. Í 2. mgr. komi fram að greiðslur skuli inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. Bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum skuli greiddar inn á reikning hjá viðskiptabönkum eða sparisjóðum í eigu greiðsluþega eða umboðsmanns dánarbús.

Fram komi í 55. gr. laga um almannatryggingar að hafi Tryggingastofnun eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum, skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig eigi stofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

A hafi fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar falli bætur niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki. A hafi látist í september 2020 og því hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða honum lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir andlátið, þ.e. frá 1. október 2020. Þegar stofnuninni hafi borist upplýsingar um andlát A hafi þegar verið búið að greiða ellilífeyri fyrir október 2020 þar sem lífeyrisgreiðslur greiðist fyrir fram samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun hafi því borið að stöðva lífeyrisgreiðslur til kæranda frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir andlátið, eða 1. október 2020, og endurkrefja dánarbúið um þær greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. október 2020 um endurkröfu ofgreiddra bóta vegna október 2020. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að krefjast endurgreiðslu á ellilífeyri sem greiddur var kæranda 1. október 2020, en A lést 25. september 2020.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, hljóðar svo:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

Greiðslur skulu inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. […]“

Samkvæmt 2. málsl 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar hefur Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Í kæru er farið fram á að úrskurðarnefndin kanni hvort framangreind krafa eigi rétt á sér, þ.e. hvort framkvæmd Tryggingastofnunar, að endurkrefja dánarbúið um greiðslur sem bárust 1. október 2020, eigi sér stoð í lögum.

Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefndin til þess að skýrt kemur fram í 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar að greiðslur Tryggingastofnunar skuli inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. Þá segir í 1. mgr. 53. gr. laganna að bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki. Samkvæmt gögnum málsins var A, sem lést 25. september 2020, ellilífeyrisþegi á árinu 2020. Tryggingastofnun greiddi kæranda ellilífeyri 1. október 2020 þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um andlát A á þeim tíma. Ljóst er að bótarétti A lauk við andlát, sbr. 2. máls. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, og greiðslur áttu því að falla niður frá og með næstu mánaðamótum, nánar tiltekið 1. október 2020. Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar að stofnunin eigi endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. október 2020, um endurkröfu ellilífeyrisgreiðslna sem greiddar voru 1. október 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli dánarbús A, um endurkröfu ofgreiddra bóta vegna október 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum